You are currently viewing Börnin burt!
Bréf Barnaverndarráðs 14. maí 1940.

Börnin burt!

Í kjölfar hernáms Breta á Íslandi í maí 1940 urðu gífurlegar breytingar á þjóðlífi íslendinga sem hafði áhrif á hin ýmsu svið þess. M.a. var stofnuð sérstök loftvarnarnefnd í Reykjavík að frumkvæði lögreglustjórans Agnars Kofoed-Hansens sem ekki aðeins sá loftvarnarráðstafanir í bænum heldur leiðbeindi einnig bæjarbúum um viðbrögðum við árásum. Strax á fundi loftvarnarnefndarinnar 12. maí 1940 var rætt um brottflutning fólks frá Reykjavík ef til stórfelldra árása kæmi. Sérstakar umræður fóru einnig um brottflutning barna úr bænum.

Please wait while flipbook is loading. For more related info, FAQs and issues please refer to DearFlip WordPress Flipbook Plugin Help documentation.

Þann 14. maí var haldinn fundur hjá Barnaverndarráði Íslands þar sem sátu auk barnaverndarráðsmanna og Símonar Ágústssonar, Jón Pálsson formaður barnaverndarnefndar Reykjavíkur og Maggi Magnús varformaður hennar og Gunnlaugur Einarsson læknir, sem mætti fyrir hönd Rauða Kross Íslands og loftvarnarnefndar. Á fundinum var rætt til hvaða ráðstafana hægt væri að grípa til við að koma sem flestum börnum úr bænum og í sveit um sumarið. Talið var að stálpuð börn á aldrinum 6-13 ára gætu lent í hættu ef til kæmi til loftárása „þar sem þau eru út um allt, en kunna hinsvegar ekki að forðast hættuna“ eins og segir í bréfi til borgarstjóra sama dag.

Fjöldi bæja með hlöðu fyrir flóttamenn
Fjöldi bæja með hlöðu fyrir flóttamenn.

Ákveðið var að safna þurfti saman skýrslum um börn í Reykjavík, einkum á skólaskyldualdri og útvega þeim sem ekki höfðu tök á að vera í sveit sett, pláss á sveitabæjum. Einnig var lagt til hvort ekki væri heppilegast að ríkisstjórnin mæltist til þess við hreppsnefndaroddvita í héruðum sem greiðar hefðu samgöngur við Reykjavík, að þeir söfnuðu skýrslum um þau heimili sem vildu taka að sér börn um sumarið einkum á skólaskyldualdri. Með því ástandi og þeim horfum sem skapast höfðu við hertöku landsins taldi fundurinn það skynsamleg og góð ráðstöfun að koma sem flestum börnum úr Reykjavík í sveit þetta sumar. Að auki var safnað saman upplýsingum um fjölda bæja í hreppum umhverfis Reykjavík sem væru með hlöðu og hversu stórar þær væru með tilliti til þeirra flóttamanna sem hægt væri að hýsa í þeim.

Heimildir

  • BSR, 21089: Fundargerðarbók loftvarnarnefndar 12. maí 1940.
  • BSR, Málasafn borgarstjóra L46: Bréf til borgarstjórans í Reykjavík frá Barnaverndarráði Íslands 14. maí 940.
  • BSR, 998: Fjöldi bæja með hlöðu fyrir flóttamenn – Árnessýsla.
  • Sævar Logi Ólafsson (2009) Loftvarnir í Reykjavík á heimstyrjaldarárunum síðari: Ráðstafanir og starf loftvarnarnefndar Reykjavíkur. (Ritgerð til B.A. -prófs) Háskóli Íslands, Reykjavík.