You are currently viewing Tilkynning frá ríkistjórninni – Á rás við innrás!
Ódagsett tilkynning frá ríkistjórninni um varúðarráðstafanir vegna ófriðarhættu.

Tilkynning frá ríkistjórninni – Á rás við innrás!

Með hernámi Breta á Íslandi 1940 jókst til muna sú hætta að hérlendis kæmi til stríðsátaka. Ríkisstjórnin gaf út sérstaka tilkynningu til bæjarbúa Reykjavíkur þar sem hún mælti eindregið með því að þeir hefðu stöðugt í heimahúsum nokkrar birgðir af tilbúnum mat sem hægt væri að grípa til fyrirvaralaust ef drægi til ófriðar. Slíkur forði væri nauðsynlegur ef verslunarstarfsemi legðist niður eða raskaðist, ef gas- og rafmagnslaust yrði í bænum eða ef menn þyrftu skyndilega að yfirgefa heimili sín. Einnig var tilgreint sérstaklega hverslags fatnað væri mikilvægt að hafa tiltækan, ef upp kæmu aðstæður eins og að framan er getið.

Áhugavert er að sjá að sá listi yfir búnað (fatnaður og nesti), sem nefndur er í þessu skjali, er keimlíkur þeim lista sem tilgreindur var yfir útbúnað starfsmanna við skyndibrottflutning sem finna má hér annars staðar á þessum vef. Ætla mætti við samlestur þessara skjala að sami maður eða sami hópur hafi komið að textagerðinni. Talað er um að hafa fatnaðinn þannig að hann kæmist fyrir í litlum böggli og innihéldi m.a. trefil, teppi, svefnpoka og svo er skrifað með rithendi: „(stór bolli, diskur og skeið)“.

Please wait while flipbook is loading. For more related info, FAQs and issues please refer to DearFlip WordPress Flipbook Plugin Help documentation.

Nesti skyldi samanstanda af niðursoðnum mat, rúgkexi og feitmeti til tveggja daga, alveg eins og nefnt er í hinu skjalinu. Þá er einnig farið ítarlega yfir æskilegan fatnað og nefnt að taka eigi með hlýjan fatnað eins og góða skó, ullarnærföt, vettlinga, hlýjan yfirfatnað, eins og skíðabuxur, ullarpeysu, vindblússu, olíuborinn stakk og fleira. Er þetta nærri því orðrétt úr fyrrnefndu skjali um útbúnað starfsmanna við skyndibrottflutning.

Tilkynningin endar með því að taka fram að menn verði „að gera sér ljóst, að hjálp sú, sem þeir geta vænst af hendi hins opinbera, ef hér yrðu alvarleg átök á milli hernaðaraðila, getur aðeins orðið af skornum skammti og er því nauðsynlegt að hver og einn geri það sem í hans valdi stendur til þess að draga úr hættunni fyrir sig og sína“. Endurspeglar þessi tilkynning glögglega hvernig hernámið gjörbreytti þjóðlífi íslendinga á svipstundu og dró landsmenn inn í nýja og ógnvænlega heimsmynd.

Heimild

  • BSR, 998: Ódagsett tilkynning frá ríkistjórninni um varúðarráðstafanir vegna ófriðarhættu.