You are currently viewing Njósnari með græna fingur
Ernst Christoph Fresenius árið 1936. Ljósmynd: M. Simson / Ljósmyndasafnið Ísafirði.

Njósnari með græna fingur

Búfræðingurinn og garðyrkjumaðurinn Ernst Christoph Fresenius fæddist í Svartaskógi í Þýskalandi árið 1897. Hann kom til Íslands árið 1926 eftir að hafa svarað auglýsingu um starf vinnumanns hér á landi. Skömmu eftir komuna til landsins skrifaði hann föður sínum bréf þar sem hann lýsti matarsiðum Íslendinga sem honum fannst vera skrýtnir. Sérstaklega fannst honum undarlegt hvernig margir drukku kaffið sitt með því að sjúga það í gegnum sykurmola.

Fresenius starfaði á nokkrum bæjum á Íslandi en lengst af á Suður-Reykjum í Mosfellssveit þar sem hann var í um fimm ár. Unnusta hans, Elisabet Fäller, flutti til hans frá Þýskalandi og giftust þau árið 1928. Fresenius hlaut íslenskan ríkisborgarararétt árið 1930.

Í Hveravík á Reykjanesi
Sumarið 1934 var Fresenius búinn að reisa steinsteypt íbúðarhús í Hveravík í Reykjanesi. Húsið var raflýst og hitað með hverahita. Auk þess hafði hann lagað fjárhús til bráðabirgða sem gróðurhús og útbúið gróðurreiti utandyra. Ljósmyndina tók M. Simson ljósmyndari á Ísafirði.

Árið 1933 bauðst Freseniusi að fara að Reykjanesi við Ísafjarðardjúp til að kanna möguleika á ylrækt. Í framhaldinu flutti hann þangað með fjölskylduna og byggði gróðurhús á staðnum auk íbúðarhúss. Fresenius ræktaði alls kyns jurtir og grænmeti í Reykjanesi og átti sér draum um Reykjanes sem miðstöð þýskra rannsókna á Íslandi. Hann sendi frá sér þó nokkrar greinar í íslensk blöð um ræktun, geymslu og notkun matjurta.

Please wait while flipbook is loading. For more related info, FAQs and issues please refer to DearFlip WordPress Flipbook Plugin Help documentation.

Please wait while flipbook is loading. For more related info, FAQs and issues please refer to DearFlip WordPress Flipbook Plugin Help documentation.

Ernst Fresenius var hallur undir nasisma og leitaði hugur hans heim til Þýskalands eftir að Hitler komst til valda. Hann flutti að lokum aftur heim til Þýskalands árið 1938, gekk í þýska herinn og afsalaði sér þá hinum íslenska ríkisborgararétti.

Fresenius fékk það verkefni að stunda njósnir á Íslandi en gagnnjósnarinn Ib Árnason Riis hafði komið þeirri hugmynd inn hjá Þjóðverjum að gerð yrði árás frá Íslandi á Noreg. Fresenius átti, ásamt tveimur öðrum mönnum, að afla upplýsinga um þá áætlun. Þeir voru hins vegar handteknir árið 1944, eftir skamma dvöl á landinu, vegna gruns um að þeir væru þýskir njósnarar og sendir í breskar fangabúðir. Árið 1946 var Fresenius dæmdur fyrir landráð á Íslandi en hafði þá setið dóminn af sér í fangabúðum. Hann fluttist til Chile eftir stríð og lést þar árið 1956.

Heimildir