You are currently viewing Upplifun af hernámi
Hermenn marsera um bæinn.

Upplifun af hernámi

Snemma morguns föstudaginn 10. maí 1940 vöknuðu Reykvíkingar við flugvélagný frá lítilli breskri flugvél sem varpaði til jarðar dreifibréfum um hvað væri í vændum. Skömmu síðar, rétt fyrir fjögur um morgunn komu fjögur bresk herskip inn í ytri höfnina og eitt þeirra renndi upp að gamla hafnarbakkanum og hóf að setja lið hermanna í land. Innan skamms var bærinn fullur af hermönnum og er jafnvel talið að allt að 800 hermenn hafi komið á land fyrsta daginn.

Togararnir Sindri, Gyllir og breski togarinn Faraday, voru teknir til þess að flytja lið, farangur og hergögn í land frá herskipunum sem lágu á ytri höfninni á land. Fyrstu hermennirnir sem á land gengu, fóru þegar í stað til bústaðar þýska ræðismannsins í Túngötu og tóku hann höndum en annar hópur fór rakleitt að húsi Landssímans og útvarpsins, brutu upp dyr hússins og tóku það á sitt vald.. Þýski ræðismaðurinn var fluttur um borð í eitt hinna bresku skipa. Breski herinn lagði undir sig Hafnarhúsið, nokkra skóla, gistihús og fleiri hús fyrir bækistöðvar sínar.

En hvernig leið Reykvíkingum? Hvernig upplifðu þeir hernámið þessa fyrstu klukkustundir eða daga? Starfsmenn Borgarskjalasafns fóru á stúfana hvort einhverjar heimildir væru til um það. Látum Elísabetu Ólafsdóttur hafa orðið:

Það fyrsta sem við fundum var frábær grein Árna Jónssonar frá Múla: „Ég sé hann fyrir mér“, þar sem hann fjallar um viðbrögð utanríkisráðherra, Stefáns Jóhanns Stefánssonar, á hernámsdaginn. Lýsandi grein um hvernig var að ganga um borgina þennan atburðarríka morgunn.

Please wait while flipbook is loading. For more related info, FAQs and issues please refer to DearFlip WordPress Flipbook Plugin Help documentation.

Við fundum einnig dagbókarfærslur úr einkaskjalasafni Carls Olsen um hernámsdaginn:

10. maí
Ísland hernumið af bresku herliði! Kl. 4 í morgun var ég vakinn af Sören sem tilkynnti mér að flugvél sæist yfir bænum og á sama tíma sáust fjögur bresk herskip úti á Sundinu. Lokað hjá Pósti og síma þar til um eftirmiðdaginn. Allt undirlagt af herliðinu og allir þjóðverjar, þar á meðal Gerlach ræðismaður, færðir um borð í herskip. Tveimur loftvarnabyssum komið fyrir á Skólavörðuholtinu. Allt með kyrrum kjörum í bænum.

Úr dagbók Carls Olsen um hernámsdaginn.
Úr dagbók Carls Olsen um hernámsdaginn.

Í dagbók Lögreglunnar í Reykjavík kemur fram að þann 10. maí 1940 hringir Jónas Jónasson alþingismaður í lögregluna að því er virðist heldur súr yfir áhuga barnanna á herliðinu. Biður hann lögregluna um að banna börnunum að tala við hermennina og sjá til þess að því verði framfylgt.

Úr dagbók Lögreglunnar í Reykjavík 10. maí 1940.
Úr dagbók Lögreglunnar í Reykjavík 10. maí 1940.

Höfundar: Elísabet Ólafsdóttir og Svanhildur Bogadóttir.

Heimildir, meðal annars