You are currently viewing Ekki gleyma niðursoðnum mat, rúgkexi, feitmeti og mataráhöldum
Útbúnaður starfsmanna við skyndibrottflutning.

Ekki gleyma niðursoðnum mat, rúgkexi, feitmeti og mataráhöldum

Hinn 11. febrúar 1942 var stofnuð sérstök brottflutningsnefnd á vegum ríkisstjórnarinnar sem átti að gera ráðstafanir um fjöldaflutning úr Reykjavík með litlum fyrirvara ef til stríðsátaka kæmi í bænum. Í nefndinni fimm menn, þeir Haraldur Árnason kaupmaður og Arngrímur Kristjánsson skólastjóri f.h. bæjarstjórnar Reykjavíkur. Þorsteinn Scheving Thorsteinsson lyfsali f.h. Rauða Krossins og Sigurður Sigurðsson berklayfirlæknir og Kristjón Kristjónsson skrifstofumaður hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga f.h. dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Nefndin setti saman brottflutningsáætlun sem laut að því að skipuleggja brottflutning barna annars vegar og fullorðinna hinsvegar og var a f þeim ástæðum gerðar tvær áætlanir um hópferðir úr bænum.

Loftvarnarnefnd Reykjavíkur sem var stofnuð í maí 1940 lét það vera eitt af sínum fyrstu verkum að koma fót fjölmennum sveitum sjálfboðaliða og áttu þeir m.a. að sinna brottflutningi úr Reykjavík ef til þess kæmi.

Útbúnaður starfsmanna við skyndibrottflutning.
Útbúnaður starfsmanna við skyndibrottflutning.

Voru gefnar út sérstakar leiðbeiningar þeim til handa þar sem tilgreindur var sá útbúnaður sem þeir þurftu að hafa til taks fyrirvaralaust. Fyrst ber að nefna að ávallt skyldu þeir hafa til taks hlýjan fatnað, hlífðarföt og nesti til tveggja daga. Nánari útlistun skilgreindi svo ítarlega hvernig útbúnaði skyldi háttað. Best væri að farangurinn væri útbúinn í lítinn böggul sem innihéldi sokka til skiptana, trefil, teppi eða sæng eða svefnpoka. Einnig þyrfti að hafa meðferðis niðursoðinn mat, rúgkex, feitmeti og mataráhöld. Síðan var farið afar vel yfir klæðnaðinn og hann tilgreindur í smáatriðum s.s. leistar, góðir skór, ullarnærföt, vettlingar, hlýr yfirfatnaður eins og skíðabuxur, ullarpeysu, vindblússu, olíuborin stakk og fleira. Þá kom fram að skyldi skyndibrottflutningur vera auglýstur áttu þeir tafarlaust að klæðast ferðafötum og koma með ofangreinda farangur á þann stað sem um gæti í kvaðningu þeirra. Segja má að þarna hafi verið hugsað út í smæstu smáatriði til að tryggja að þessir aðilar yrðu sem best búnir og gætu tekið á hlutverki sínu með sem tryggustum hætti.

Heimildir

  • BSR, 3128: Bréf frá RKÍ til borgarstjóra 28. febrúar 1942 – BSR: Bréf frá bæjarstjórn til RKÍ 20. febrúar 1942.
  • BSR, 3128: Ódagsett skýrsla frá ríkisstjórninni, án viðtakanda og sendanda.
  • BSR, 997: Útbúnaður starfsmann við skyndibrottflutning.
  • Sævar Logi Ólafsson (2009) Loftvarnir í Reykjavík á heimstyrjaldarárunum síðari: Ráðstafanir og starf loftvarnarnefndar Reykjavíkur. (Ritgerð til B.A. -prófs) Háskóli Íslands, Reykjavík.