Árið 1934 var túnið á Vestri-Stakkagerði gert að opinberum leikvelli á vegum Vestmannaeyjabæjar, tæki voru sett upp og girt var í kringum völlinn. Einnig var umsjónarmaður ráðinn yfir leikvellinum.
Er heimstyrjöldin síðari hófst var ákveðið að grafa skurði á vellinum svo börnin gætu leitað skjóls ofan í skurðunum ef gerð yrði loftárás. Til er samtímalýsing á mannvirkinu í bók Haraldar Guðnasonar Við Ægisdyr II frá 1991.
Loftvarnarbyrgið eru bara nokkrir skurðir grafnir ofan í túnið svo sem axlardjúpir. Í botninum voru pollar því rigning hafði verið um morguninn og óðst moldin fljótt upp og varð allt ein leðja (bls 337).
Þá töldu sumir skurðina vera stórhættulega því þeir væru svo líkir skotgröfum hermanna, því ætti að fylla uppí þá og tyrfa yfir. Stakkagerðistúnið ber þess ekki merki að hafa verið sundurgrafið í eina tíð. Í dag er þar enn leikvöllur og útivistarsvæði Vestmannaeyinga.