You are currently viewing Á rás við árás
Amerískir hermenn og börn á skautum á Tjörninni. BSR, Póstkort.

Á rás við árás

Með hernámi Breta á Íslandi 1940 jókst til muna sú hætta að hérlendis kæmi til stríðsátaka. Til ýmissa ráðstafana var gripið af hálfu ríkisstjórnarinnar og að mörgu þurfti að huga. Eitt var það sem mikilvægt þótti að huga að en það var brottflutningur bæjarbúa og barna þeirra ef til innrásar kæmi. Skipuð var sérstök loftvarnarnefnd og sjálfboðaliðar kallaðir til að aðstoða við framkvæmd þeirra áætlana sem lagðar voru til og ræddar.

Breskir hermenn heilsa upp á íslensk börn
Breskir hermenn heilsa upp á íslensk börn. http://70brigade.newmp.org.uk/wiki/Iceland_Garrison_October_1940_-_December_1941 Tekið af vef 6.11.2020.

Í skjalasafni Borgarskjalasafns má finna ýmis áhugaverð skjöl sem varpa ljósi á undirbúning og viðbrögð þeirra sem til voru kallaðir til að geta brugðist við á sem bestan hátt ef til átaka kæmi. Má þar til dæmis finna sérstaka tilkynningu til bæjarbúa Reykjavíkur þar sem ríkisstjórnin mælti eindregið með því að þeir hefðu stöðugt í heimahúsum nokkrar birgðir af tilbúnum mat sem hægt væri að grípa til fyrirvaralaust ef drægi til ófriðar og fatnað sem hentaði ferðalögum. Einnig voru gerðar sérstakar ráðsstafanir hvað varðaði brottflutning á fullorðnum og sérstaklega börnum í Reykjavík og áætlanir framsettar til að forða þeim frá hugsanlegu stríðsástandi af Barnaverndarráði Íslands, barnaverndarnefnd Reykjavíkur, Rauða Krossinum og loftvarnarnefndinni. Þá voru gefnar út leiðbeiningar fyrir útbúnað starfsmanna sem skipaðir voru vegna skyndibrottflutnings og ítarlega tilgreint hvað þeir skyldu hafa í sínum fórum ef til skyndilegs útkalls skyldi koma.

Ungir strákar í fótbolta með breskum hermönnum
Ungir strákar í fótbolta með breskum hermönnum. http://70brigade.newmp.org.uk/wiki/Iceland_Garrison_October_1940_-_December_1941 Tekið af vef 6.11.2020.

Af þessu má sjá að oft geyma skjöl heimildir og upplýsingar sem að varpa mjög skýru og ítarlegu ljósi á hugsanir fólks, viðbrögð við ólíkum aðstæðum og framkvæmdir aðgerða þegar að skyndilega hið daglega líf fer algjörlega á annan veg en vaninn var.