Fáir atburðir hafa haft meiri áhrif á íslenskt þjóðlíf og hernám Íslands. Þann 10. maí 1940 vöknuðu íbúar Reykjavíkur upp við að breskt herlið hafði hertekið bæinn og brátt voru settar upp herstöðvar víða um land. Sennilega hefur engum órað fyrir hversu víðtæk áhrif þessi viðburður átti eftir að hafa fyrir íslensku þjóðina.

Þó íslenskt samfélag hefði vissulega þróast á fyrstu áratugum 20. aldar, þéttbýli hafi myndast og bændasamfélagið hafi verið á nokkru undanhaldi, varð hernámið til þess að hraða samfélagsbreytingunum og kasta Íslandi inn í hringiðu stórpólitískra viðburða. Áhrifin á atvinnulíf, menningu og samfélagið í heild voru mikil og varanleg.

Hermenn í Reykjavík árið 1940.
Hermenn í Reykjavík árið 1940. Ljósmynd: Reddit.

Í íslenskum skjalasöfnum eru margvísleg gögn sem tengjast þessum merkilega tíma Íslandssögunnar. Allt frá opinberum skýrslum, kvörtunum, bréfum, frásögnum af slysförum eða sambandi Íslendinga við herliðið til ljósmynda og margvíslegra minninga fólks sem upplifði þessa tíma bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt.

Yfirskrift Norræna skjaladagsins 2020 er: Hernumið land. Héraðsskjalasöfnin og Þjóðskjalasafn birta á þessari síðu dálítið brot af þeim gögnum, sem varðveitt eru í söfnunum. Einungis er um að ræða lítið sýnishorn – innlit í horfinn tíma, sem æ færri núlifandi Íslendingar muna.

Vonandi verður vefurinn til fróðleiks og skemmtunar fyrir ykkur sem heimsækið hann, en hér eftir sem hingað til eru söfnin boðin og búin að svara fyrirspurnum varðandi safnkostinn og starfsemi safnanna.

Gort lávarður, John Standish Surtees Prendergast Vereker, 6. greifinn af Gort (1886–1946), segir frá ferð sinni til Íslands árið 1940 og hernámi Breta þar.