You are currently viewing Á Frekjunni til Íslands
Erindisbréf Jóns Krabbe.

Á Frekjunni til Íslands

Þegar síðari heimsstyjöldin braust út voru Íslendingar víða um heim og hugðu á heimferð frá heimsins vígaslóð. Ferðir yfir Atlantshafið voru ekki hættulausar. Eftir hernám Þjóðverja á Danmörku, 8. apríl 1940 og hernám Íslands 10. maí 1940 jókst áhugi Íslendinga á heimferð en erfitt var um vik.

Snemmsumars 1940 fóru nokkrir Íslendingar að velta fyrir sér þeim möguleika að kaupa lítinn bát og sigla frá Danmörku til Íslands. Sumir höfðu litla eða enga sjómannsreynslu, en Lárus Blöndal var skipstjóri með þekkingu og reynslu til ferða yfir hafið. Þá voru með í för þeir Gísli Jónsson vélstjóri og síðar alþingismaður, Gunnar Guðjónsson skipamiðlari, Björgvin Fredriksen vélvirki, Theodór Skúlason læknir, Úlfar Þórðarson augnlæknir og Konráð Jónsson verslunarmaður.

Til ferðar sem þessarar á hættutímum þurfti hins vegar margvísleg leyfi. Leyfi frá þýskum heryfirvöldum barst í júnímánuði og hófst þá leit að heppilegum bát til siglinga. Í höfninni í Frederikshavn á Jótlandi var 32 tonna fiskiskip. Var skipið rúmlega 50 ára með lítilli vél og þótti reyndar vart hæft til langferða, en engu að síður festu þeir sér það til kaups. Til að geta gengið frá kaupunum þurfti að yfirfæra fjármuni frá Íslandi til Danmerkur. Það var ekki auðsótt en hafðist þó að lokum. Þá þurftu þeir liðsinni íslenska sendiráðsins í Kaupmannahöfn við ýmis atriði er vörðuðu ferðina. Skipið nefndu þeir Frekjuna og eftir mikið stapp tókst þeim félögum að fá leyfi til kaupa á olíu og úr höfn var lagt þann 27. júlí og þann 11. ágúst komu þeir að Íslandsströndum. Gísli Jónsson, einn ferðalanganna ritaði bókina: Frekjan. Ævintýralegt ferðalag sjö Íslendinga frá Danmörku um Noreg til Íslands í júlí – ágúst 1940, sem kom út ári eftir að ferðin var farin. Þar má lesa ítarlega lýsingu þessarar merkilegu ferðar. Auk þess voru ritaðar greinar í blöðin um ferðina, sem þótti hin merkasta.

Erindisbréf Jóns Krabbe.
Erindisbréf Jóns Krabbe.

Í skjalasafni Utanríkisráðneytisins er áhugavert bréf, sem tengist þessari ferð og er það birt hér. Í bréfinu er þess getið að Lárusi Blöndal, sem skráður var skipstjóri Frekjunnar, væri falið að flytja til stjórnvalda á Íslandi eintök af blaðinu Politiken og að auki eitt bréf sem óljóst er hvað innihélt. Á erindisbréfinu er innsigli og undirritun Jóns Krabbe, sem var forstöðumaður sendiráðsins í Kaupmannahöfn á stríðsárunum í fjarveru sendiherra og trúnaðarmaður Íslands í samskiptum við danska ríkið. Væntanlega hefur bréfið verið ritað í þeim eina tilgangi að auðvelda för Íslendinganna, ef þeir skyldu lenda í vandræðum í samskiptum við breska heimsveldið á hafinu og sýnilegt er að það hefur verið stimplað í Færeyjum af breskum hernaðaryfirvöldum. Hvað flutninginn sjálfan varðar var bréfið, sem þeir áttu að flytja til stjórnarráðsins og eintökin af Politiken gerð upptæk og send til London. Erindisbréfið, sem hér er birt, ber hins vegar með sér að íslensk stjórnvöld spurðust fyrir um ástæður fyrir því að pósturinn lenti í þessum hrakningi. Hugsanlega hafa eintökin af Politiken og bréfið góða aldrei ratað til íslenskra stjórnvalda, en umburðabréf Jóns Krabbe rataði til forsætisráðuneytisins þann 15. ágúst 1940. Þó er þessarar hliðarsögu ekki getið í bók Gísla Jónssonar um ferð Frekjunnar til Íslands.

Heimildir

  • Gísli Jónsson. Frekjan. Ævintýralegt ferðalag sjö Íslendinga frá Danmörku um Noreg til Íslands í júlí – ágúst 1940. Reykjavík. 1941.
  • Gunnar Guðjónsson. „Með „Frekjunni“ til Íslands“. Lesbók Morgunblaðsins 18. ágúst og 25. ágúst 1940.
  • ÞÍ. Utanríkisráðuneytið 1967. B/168-1.