Hinn 6. júlí 1940 kom 50-60 manna flokkur breskra hermanna til Sauðárkróks. Fyrir flokknum fór kafteinn Douglas Richmond Bell. Sóttist hann eftir að fá barnaskólann til íbúðar fyrir setuliðið. Var það að lokum samþykkt með því skilyrði að flokkurinn myndi skila húsnæðinu um haustið áður en skólastarf hæfist. Um miðjan júlí voru um 130 hermenn komnir til Sauðárkróks og því aðkallandi að leysa húsnæðisvandann þó hluti þessa hóps hafi haldið til Siglufjarðar til að vera þar um veturinn.
Um sumarið lagði herliðið samkomuhúsið Bifröst og hafnarhús undir sig ásamt húsinu Bræðrabúð sem var í eigu Kristjáns Gíslasonar kaupmanns. Í Bræðrabúð geymdu þeir til að mynda talstöðvar, skotfæri og viskíbirgðir. Þeir munu einnig hafa haft birgðastöð í gömlu sláturhúsi sem var við Freyjugötuna.
Í september 1940 tók herliðið á leigu Templarahúsið Gúttó eða „The Magnet Hotel“ eins og Bretarnir nefndu það. Einnig tóku þeir Hótel Tindastól á leigu fyrir foringjana. Ofan við hótelið var byggður braggi fyrir óbreytta liðsmenn. Tveir braggar voru að auki byggðir norðan við Hafnarhúsið á Eyrinni en þessir braggar stóðu áður í Varmahlíð. Á svipuðum slóðum var einnig hlaðið lítið hús sem var nýtt sem eldhús og þvottahús.
Í samkomuhúsinu Bifröst komu Bretarnir sér upp mötuneytisaðstöðu. Á miðju dansgólfinu höfðu þeir boxhring sem þeir nýttu til æfinga. En einnig nýttu þeir samkomuhúsið í samræmi við upphaflegt hlutverk þess, þ.e. til skemmtana og dansleikja.
Umgengni hermannanna þótti ekki til fyrirmyndar og stóðu fyrirmenn á Sauðárkróki í töluverðu stappi við herliðið um bætur vegna skemmda á húsum og lausamunum. Ekkert hús fór þó verr út úr þessum viðskiptum en Bræðrahúð sem brann aðfaranótt 4. september 1940. Í húsinu gistu þrír hermenn en þeir björguðust allir. Brunalið bæjarins gat ekki sinnt störfum sínum sem skildi því skotfærin sem geymd voru í húsinu sprungu í eldinum. Var húsið gjörónýtt eftir brunann.
Heimildir
- Ágúst Guðmundsson (2018). Þegar Krókurinn varð hluti af heiminum. Hernámsárin 1940-1942. Skagfirðingabók 2018. Sögufélag Skagfirðinga, bls. 152-204.