You are currently viewing Sigldum alltaf sama strikið
Teikning umboðsmannsins af bátnum.

Sigldum alltaf sama strikið

Í einkaskjalasafni Júlíusar Havsteen fyrrv. sýslumanns Þingeyinga er að finna útdrátt úr Strandbók umboðsmanns lögreglustjórans í Þingeyjarsýslu á Raufarhöfn (E-1680/34).

Útdráttur úr Strandbók umboðsmanns lögreglustjórans.
Útdráttur úr Strandbók umboðsmanns lögreglustjórans.

Þar kemur fram að þann 17. apríl 1944 var umboðsmaður sýslumanns staddur í herbúðum breska setuliðsins á Raufarhöfn til að taka skýrslu af tveim Íslendingum sem komu á vélskipi frá Noregi sem flóttamenn. Aðspurðir sögðust þeir koma frá Danmörku, yfir Svíþjóð og Noreg. Þeir komu á báti frá Kristjanssund og tóku land fyrst á Raufarhöfn. Þeir sögðust vera búnir að vera 10 daga á leið frá Noregi. Mennirnir voru mjög þreyttir eftir ferðalagið og svefnlausir og því var beðið með að taka af þeim frekari skýrslu þar til að þeir höfðu sofið.

Aðfararnótt hins 17. apríl höfðu sést ljós á skipi utan við Raufarhöfn og virtist skipið liggja þar kjurt. Þegar fólk á Raufarhöfn fór á fætur um morguninn sást að vélskip lá fast í íshraflinu utan við Raufarhafnarhöfn. Hafði skipið ekkert flagg uppi eða merki um að það væri í hætt statt, og gerði ekkert til að gera frekar vart við sig. Þegar skipið var athugað í sjónauka sást maður ganga um á þilfarinu. Seinna um daginn náðu 3 piltar frá Raufarhöfn að komast gangandi á ísnum að skipinu og ná tali af skipsverjunum. Það reyndust mennirnir tveir sem áður um getur. Var þeim fylgt í land. Breskir setuliðsmenn komu þegar á vettvang og tóku mennina í gæslu.

Teikning umboðsmannsins af bátnum.
Teikning umboðsmannsins af bátnum.

Sögðust mennirnir farið þann 24. mars frá Kaupmannahöfn yfir til Malmö sem „blindir farþegar“. Yfir Svíþjóð hafi þeir svo getað ferðast óhindrað þar sem ekkert eftirlit hafi verið með fólki sem ferðaðist innanlands. Þaðan fóru þeir yfir Norsku landamærin með því að fela sig milli vörukassa í flutningalest. Síðan tók við ganga hjá þeim þar til að þeir náðu járnbrautarlest til Þrándheims. Þar keyptu þeir bátinn sem þeir komu á.

Vél bátsins var mikið í ólagi á leiðinni. Þeir sögðust ekki vera siglingarfróðir en hafa fengið strikið sett í kortið áður en þeir lögðu af stað og alltaf siglt sama strikið þar til þeir sáu Ísland.

Þann 20. apríl rak skipið upp í Ormalónshöfða og brotnaði í spón.