Jóhanna Knudsen gegndi starfi yfirhjúkrunarkonu á sjúkrahúsinu á Ísafirði á árunum 1934-1940. Á þessari mynd, sem var tekin árið 1937, má sjá Jóhönnu (t.h.) ásamt Sigríði Árnadóttur hjúkrunarkonu. Í fanginu á þeim eru tvíburarnir Álfhildur Svala og Brynhildur Erla Sigurðardætur, fæddar 15. júlí 1936.
Jóhanna fæddist árið 1897 og lauk hjúkrunarprófi í Osló árið 1930. Hún kom til Íslands að námi loknu og starfaði m.a. á Landspítalanum og á hressingarhæli fyrir berklaveika sem stofnað var árið 1931. Jóhanna var farsæl í starfi sínu sem yfirhjúkrunarkona og gott orð fór af henni. Henni var sérlega annt um velferð barna og reyndi árið 1939 að fá leyfi og styrk til að stofna barnaspítala í Reykjavík, en þeirri beiðni var synjað.
Jóhanna var ráðin til lögreglunnar í Reykjavík 1. janúar 1942 ásamt Sigríði Erlendsdóttur hjúkrunarkonu og voru þær fyrstu lögreglukonur landsins. Jóhönnu var umhugað um siðferði íslenskra kvenna á hernámsárunum og var ráðin af lögreglustjóranum í Reykjavík og dómsmálaráðherra til að vinna með ungar stúlkur sem „lent hafa á glapstigum“. Lagðist hún í miklar rannsóknir á siðferðisbrotum kvenna og stúlkna á hernámstímanum og eru þessar rannsóknir taldar vera yfirgripsmestu persónunjósnir Íslandssögunnar. Jóhanna hélt lista með nöfnum yfir 500 kvenna sem hún og samstarfsmenn hennar höfðu eftirlit með auk fjölskylda margra þeirra. Hún kom einnig að því að senda stúlkur á vinnuhæli eða í betrunarvist vegna siðferðisbrota með hermönnum.
Jóhanna varðveitti talsvert af þeim skjölum sem urðu til í starfi hennar og vörðuðu konur sem hún hafði rannsakað innan embættis lögreglunnar. Þessum gögnum var skilað inn til Þjóðskjalasafns árið 1961 með þeim fyrirmælum að þar væru persónuleg skjöl á ferð og mætti ekki opna þau næstu 50 árin. Annað kom á daginn þegar skjölin voru skoðuð árið 2011. Í ljós kom að skjalapakkinn innihélt ítarleg vinnugögn og skýrslur Jóhönnu frá hernámsárunum sem gáfu góða sýn á hvers kyns starfi Jóhanna og hennar aðstoðarmenn sinntu.