You are currently viewing Akranes á tímum hernáms

Akranes á tímum hernáms

Á stríðsárunum var Vesturland einn helsti vettvangur hernaðarumsvifa Bandamanna á Íslandi. Hvalfjörður var skipalægi fyrir mikinn herskipaflota sem sinnti gæslu og hernaði á Norður Atlantshafi. Fjörðurinn var einnig miðstöð fyrir skipalestir sem sigldu með vopn og vistir til Norðvestur Rússlands til hjálpar Sovétríkjunum á ögurstundu í baráttu við þýska innrásarheri. Bandaríkin drógust inn í stríðið, meðal annars vegna afskifta af siglingum þessara skipalesta sem síðar hafa verið nefndar Íshafsskipalestirnar. Augu stórveldanna beindust að Hvalfirði þar sem bæði Churchill, Roosevelt og Stalín tóku beinan þátt í ákvörðunum sem höfðu afgerandi áhrif á gang styrjaldarinnar, og þar með þróun mannkynssögunnar.

Hernámið hafði einnig mikil áhrif á íslenskt þjóðfélag. Hermenn voru mjög áberandi á Akranesi og settu svip á mannlífið. Braggahverfi reis neðst við Vesturgötu. Bretar kölluðu það „Cleveland Camp“. Á myndinni hér að ofan má greina nafnið á skilti lengst til hægri. Þar kemur líka fram að þessi hluti Vesturgötu hét „Marley Street“ í hugum Breta. Næst til vinstri á myndinni eru Neðri-Lambhús. Fjær er Vesturgata 10 sem stendur enn í dag. Við tröppur þess húss má greina hest með kerru. Svokölluð Fiskivershús sjást að hluta neðan við braggana fimm til hægri. Fyrir framan þá stendur foringi með mönnum sínum. Fjær er varðmaður með brandi brugðna byssu um öxl. Við enda Vesturgötu má svo greina blómlegt braggahverfi.