Ein frásögn tengd stríðsárunum er rituð af Birni Jónssyni í Bæ, eftir frásögn Trausta Þórðarsonar (1908-2005).

Frændurnir Óskar Bjarnason (1897-1979) og Halldór Antonsson (1921-2008) voru að leita að sauðfé á Deildardalsafrétt í nóvember 1941.
…framarlega í svokölluðum Skálabrúnum sáu þeir hvar loftbelgur einn geisi mikill kom svífandi…þvert yfir dalinn og út og yfir á Skálabrúnir þar sem mennirnir voru staddir. Dró hann á eftir sér langan stálvír, belgurinn var mjög út þaninn og sveif því vel fyrir vindi. Þeir félagarnir náðu í vírinn sem drógst þarna með jörðu, gátu þeir vafið honum um stóran stein, en kraftur belgsins var svo mikill að steinninn liftist og losnaði úr viðjum, næst gátu þeir þó vafið um jarðfast bjarg, sló þá belgnum við fjallsbrúnina, og sprakk með miklum kvin, gaus úr honum kolsvartur reikur sem megna fýlu lagði af.
Þar næsta dag var gerður út sjö manna björgunarleiðangur, enda talið að breska herliðið yrði rausnarlegt við greiðslu björgunarlauna.
Við tókum belginn, vöfðum hann upp og reyrðum hann saman með köðlunum, ekki var nein leið að bera þettað flykki því að hann var m.k. 400 kg að þyngd. Var tekið það ráð að velta honum niður á sléttlendi, þá var reynt að bera belginn, en það heppnaðist ekki nema nokkra metra í einu. Var því það ráð tekið að skilja flykkið eftir fram við svokallaðan Grástein. Næsta dag fórum við 4 frameftir, með 4 hesta.

Voru hestarnir látnir draga belginn niður dalinn, þangað sem hægt var að koma bíl og hann síðan fluttur að bryggju á Hofsósi.
Nokkur tími leið án þess að bretar skiptu sér nokkuð af þessu rekaldi, líklega hafa þeir haft nokkuð annað að gera á þeim tímum og annað eins farið í súginn og einn loftbelgur. Þó kom skip og tók þetta. Hóflegur reikningur var sendur fyrir vinnu, en engin greiðsla kom, enda vitnaðist að belgurinn átti að halda áfram sýnum leiðángri.