You are currently viewing Herskálarnir á Reyðarfirði
Hermannaskálar og þorpið á Reyðarfirði um 1950-1960. Neðst eru skálar norsku flugsveitarinnar. Ameríski spítalinn efst á myndinni upp við Búðará.

Herskálarnir á Reyðarfirði

Á stríðsárunum var Reyðarfjörður önnur aðalbækistöð hersins á Austurlandi en hin var Seyðisfjörður. Þann 1. júlí árið 1940 sigldi herflutningaskipið Andes inn fjörðinn og setti fjölmennt herlið í land á Búðareyri. Þá bjuggu um 300 manns í þorpinu en talið er að hermennirnir hafi verið um 3000 þegar flest var. Fyrst komu breskir hermenn og síðar einnig norskir, kanadískir og bandarískir. Þorpið Búðareyri og sveitabæir í nágrenninu voru umkringdir herskálum.

Samning á milli Sölunefndar setuliðseigna og Kaupfélags Héraðsbúa frá 28. júní 1944 er að finna í skjalasafni Kaupfélags Héraðsbúa (KHB). Um töluverðar eignir var að ræða, meðal annars skálabyggingar sem höfðu hýst um þúsund manna setulið, sem að mestu leyti hvarf á brott á árinu 1943. Hverfi ameríska setuliðsins hétu meðal annars Ali Baba og Hyde Park.

Hluti samnings úr skjölum Kaupfélags Héraðsbúa Reyðarfirði 1944
Hluti samnings úr skjölum Kaupfélags Héraðsbúa Reyðarfirði 1944.

Bráðabirgðalög um sölu setuliðseigna höfðu verið sett í apríl 1944, um að forkaupsrétt hefðu að öllu jöfnu þau bæjar- og sveitarfélög þar sem fasteignirnar voru, þannig að forkaupsrétt á þessum eignum átti Reyðarfjarðarhreppur.

Kaupfélagsstjóri var Þorsteinn Jónsson sem einnig gegndi embætti oddvita. Sat hann því beggja megin borðsins. Ekki vildu félagar hans í hreppsnefndinni samþykkja þennan gjörning kaupfélagsstjóra og hótuðu málsókn. Eftir nokkuð þref urðu málalok þau að sveitastjórnin samþykkti tilboð um samkomulag frá KHB, þar sem boðið var að hreppurinn yrði eigandi allra setuliðseigna að hálfu á móti kaupfélaginu.

Sala skálanna hófst strax á árinu 1944. Hjá Héraðsskjalasafni Austfirðinga er fátt að finna um þessi viðskipti. Í höfuðbók félagsins frá árabilinu 1944-1948 eru þó nokkrar blaðsíður með yfirskriftinni „Herskálarnir“ eða „Herskálarnir Reyðarfirði“ og eru þar rituð nöfn þeirra sem keyptu og upphæðin sem greidd var. Upphæðirnar eru misháar allt frá kr. 120 til kr. 5.500. Í höfuðbókinni má sjá að margir af kaupendunum voru bændur. Síðustu viðskiptin eru með fyrirsögninni „Skálasalan 1948“.

Úr höfuðbók Kaupfélags Héraðsbúa Reyðarfirði 1944 - 1948
Úr höfuðbók Kaupfélags Héraðsbúa Reyðarfirði 1944 – 1948.

Í bókaflokknum Sveitir og jarðir í Múlaþingi sem kom út á árabilinu 1974-1976 hjá Búnaðarsambandi Austurlands er gerð grein fyrir húsakosti jarða. Ritstjóri var Ármann Halldórsson, sem var héraðsskjalavörður árið 1976. Þar má sjá að fjöldi bænda keypti herskála einn eða fleiri og notuðu þá til að byggja upp útihús á jörðum sínum. Mest hlöður en einnig fjárhús, skemmur og jafnvel fjós og má enn sjá skálabyggingar við sveitabæi frá þessum tíma í túnfæti þegar ekinn er þjóðvegur 1.

Aðeins eitt dæmi fannst um að skáli hefði verið notaður sem íbúðarhús, utan þess að nokkrir af frumbyggjum Egilsstaðaþorps bjuggu í bragga á meðan þeir voru að koma upp húsum sínum.

Skálahús á Gilsárvöllum III, Borgarfirði eystri, byggt 1946
Skálahús á Gilsárvöllum III, Borgarfirði eystri, byggt 1946.

Á fimmta áratugnum byggði KHB upp aðsetur á Egilsstöðum og samhliða því óx upp lítið sveitaþorp. Þar reisti félagið m.a. tvo geymsluskála sem segja má að hafi verið fjölnota hús, þeir hýstu í sláturtíðinni mötuneyti og svefnaðstöðu starfsmanna. Einnig voru á fyrstu árum þorpsins haldnar þar samkomur eins og þorrablót og settar upp leiksýningar. Auk þess var trésmíðaverkstæði KHB framan af rekið í skálabyggingu og fleiri hús af sama toga risu í tengslum við rekstur sláturhúss og verslunar.

Úr leiksýningu í skálabyggingu KHB á Egilsstöðum.
Úr leiksýningu í skálabyggingu KHB á Egilsstöðum.

Dæmi eru um að skálar væru notaður til samkomuhalds, má þar nefna samkomuhús Ungmennafélagsins Hróars í Tunguhreppi við Þórisvatn sem gekk undir nafninu Blikkholt. Búseta var í Vöðlavík þar til um 1970 og enn má sjá rústir herskála sem íbúar byggðu sér og notuðu sem samkomuhús eftir seinna stríð.

Þegar skoðuð eru gögn KHB sem og ritröðin Sveitir og jarðir kemur í ljós að hvergi er talað um bragga, heldur skála eða herskála og mun sú málvenja enn vera mörgum Austfirðingum töm, þó vel þekki þeir til bragganafnsins.