You are currently viewing Herseta á Blönduósi
Braggahverfið Hurworth Camp á Blönduósi.

Herseta á Blönduósi

Það var á haustdögum 1940 sem breski herinn kom á Blönduós og gerði sér þar herbúðir. Það voru um 100 manns úr undirfylki D, 10 Durham Light Infantry og stórskotaflokki sem fylgdi. Það átti eftir að fjölga í hernum og í árslok 1941 voru hemennir orðnir 180, en þeir sáu einnig um varðstöðu á Skagaströnd.

Herbúðunum var valinn staður á milli Kaupfélagsins og kvennaskólanns og búðirnar fengu nafnið Hurworth Camp eftir þorpi í Norðaustur Englandi í heimasveit Durham herfylkisins. Samtals voru reistir 27 íbúðarbraggar, en matarbragginn brann fyrsta veturinn.

Ameríski herinn tók svo yfir herbúðirnar 14. apríl 1942. Það var fótgönguliðsundirfylki K og stuðningslið úr 3. herfylki 11. fótgönguliðssveitar Bandaríkjahers undir stjórn Shrewberrys höfuðsmanns. Bandaríski herinn yfirgaf staðinn í maí 1943 og keypti bærinn þá braggana til niðurrifs.

Samþykkt um loftvarnir á Blönduósi.
Samþykkt um loftvarnir á Blönduósi.

Eins og gefur að skilja var töluverða vinnu að hafa fyrir heimamenn í fyrstu við uppbyggingu kampsins og síðar þjónustu við her og hermenn.

Samskiptin virðast hafa verið snurðulaus þrátt fyrir áhyggjur bæjarstjórnar af stúlkunum í kvennaskólanum og ekki síður af siðprýði heimakvenna. Gefin var út tilkynning um takmörkun samskipta og jafnframt útgöngubann á kvöldin. Almennt voru þó samskiptin siðsamleg þó með einstaka undantekningum, „en þetta er bara svo gott“ sagði ein þeirra, sem ekki gat varist freistingarnar, þegar húsmóðir hennar átaldi hana fyrir framferðið.

Áskorun hreppsnefndar til sýslumanns.
Áskorun hreppsnefndar til sýslumanns.

Vélbyssuvígi var komið fyrir á Skúlahorni þar sést vítt til sjávar og sveita. Ekki kom til neinna átaka, ef undanskilið er uppnámið sem varð í herbúðunum þegar strandferðaskipið Súðin sigldi inn flóann í janúar 1941.

Í fundargerðum er ekki minnst á almenn samskipti við hermenn nema þær áhyggjur og aðvaranir gegn brotum á blygðunarsemi stúlkna staðarins og gáleysisathafnir bæjarbúa.

Í kirkjugarðinum hvíla 2 breskir hermenn og hefur hann verið útnefndur sem breskur stríðsgrafreitur „The Commonwealth War Graves Commmission“.

Heimildir

  • Hersetan á Ströndum og Norðurlandi vestra.
  • Fundargerðarbækur Blönduóshrepps.
  • Persónuleg gögn.