You are currently viewing Árás á Súðina
Súðin komin til hafnar á Húsavík. Ljósmynd: Sigurður Pétur Björnsson.

Árás á Súðina

Um kl. 13:30, þann 16. júní 1943, gerði þýsk fjórhreyfla sprengjuflugvél árás á strandferðaskipið Súðina á Skjálfandaflóa. Um daginn var bjart veður og notfærðu flugmenn þýsku vélarinnar sér það með því að nálgast skipið undan sól þannig að skipverjar tóku ekki eftir vélinni fyrr enn hún lækkaði flugið og renndi sér niður að skipinu. Þó svo að tveimur sprengjum, sem varpað var að skipinu, hittu ekki skipið þá sprungu þær svo nálægt því að strax kom leki að því og sjór fór að streyma í lestarúmið. Flugmennirnir gerðu á sama tíma vélbyssuskothríð á skipverja sem voru ofan þilja og særðu fjóra þeirra alvarlega.

Breskur togari, sem var staddur á veiðum nálægt Súðinni, tók særðu mennina um borð og sigldi með þá til Húsavíkur. Á leiðinni létust tveir hina særðu. Súðin var svo dregin til hafnar mikið löskuð.

Líkfylgd
Líkfylgd. Skipverjar fylgja föllnu félögum sínu til skips á Húsavík. Ljósmynd: Sigurður Pétur Björnsson.

Á Héraðsskjalasafni Þingeyinga er varðveitt lýsing Þormóðs Jónssonar af því þegar hann sá Súðina leggjast að bryggju á Húsavík (HérÞing E-1120/23). Þormóður var á þessum tíma á leið frá Austurlandi á Skagaströnd þar sem hann hafði ráðið sig í vinnu:

Ég dvaldi í einn eða tvo daga heima á Húsavík á leið minni frá Austurlandi vestur í Húnavatnssýslu. Þá urðu válegir atburðir á Skjálfanda. Þjóðverjar réðust með flugvél á strandferðaskipið Súðina, sem var á siglingu skammt undan Flatey. Þeir létu sprengjur falla á hana og skutu úr fallbyssu og vélbyssu á áhöfn hennar. Þegar árásinni létti voru margir skipsverjar sárir og skipið laskað. Enskur togari kom að og fylgdi Súðinni til Húsavíkur.
Fréttir af þessum atburði hafði borist um Húsavík og nokkur hópur fólks var kominn niður á bryggju, þegar Súðin lagðist að henni. Ég hélt mér lítið eitt frá hópnum, hafði þannig góða sýn til skipsins, Júlíus Havsteen, sýslumaður, og Bárður Jakobsson, tengdasonur hans stóðu við skipshlið. Fleira fólk færði sig nær skipinu, en Bárður bað það að þoka frá því aftur. Því var hlýtt með semingi. Fólkið hvíslaðist á. Einhverjir töldu sig vita, að tveir skipsverjar væri látnir og fleiri sárir, enn fremur, að uppi í sjúkrahúsi væri læknir og annað starfslið Sjúkrahússins á Húsavík búið undir að taka á móti þeim, er höfðu særst.
Ég varð að hverfa af vettvangi áður en sárir menn voru fluttir frá borði, en hef í huganum myndina af fólkinu á bryggjunni alvörugefnu döpru og þungbúnu.