You are currently viewing Grenjaleit í hernumdu landi
Þyrill í Hvalfirði. (Héraðskj.Borg. Ungmennasamband Borgarfjarðar. Ljósmynd Þorsteinn Jósepsson).

Grenjaleit í hernumdu landi

Hinn 12. júní 1943 fór Þorsteinn Böðvarsson bóndi í Grafardal í Skorradal ásamt nágranna sínum til grenja. Voru þeir vel útbúnir með hesta, tjald, skotfæri og mat til að minnsta kosti til þriggja daga. Leituðu þeir vestur heiðina, en það er svæðið frá Gljúfurdal að sunnan og austur að Bakkakotsgili að norðan, og könnuðu nokkra grenjastaði, en fundu þar ekki ummerki eftir refi. Áttu þeir eftir eitt greni, sem þeim bar að leita í, sem var í Grenlág, sem er vestan við Þyril og því inni á hersvæðinu í Hvalfirði.

Nágranninn beið uppi á heiði, en Þorsteinn fór niður fjallið Þyril að bænum Þyrli og fékk bóndann þar með sér á herstöðina til að fá leyfi, sem fékkst með aðstoð Egils, túlks á Akranesi. Fóru grenjaskytturnar á umrætt svæði og sáu þar strax merki um rebba og fjölskyldu hans. Ákváðu þeir að skiptast á að vakta grenið. Var nágranninn á vaktinni þegar heyrist skothríð mikil og kom hann hlaupandi á harðaspretti til Þorsteins og sagði að það hefði verið skotið á sig og að hér yrði hann ekki lengur. Forðuðu þeir sér og skildu allt sitt dót eftir.

Please wait while flipbook is loading. For more related info, FAQs and issues please refer to DearFlip WordPress Flipbook Plugin Help documentation.

Þorsteinn var ekki alveg sáttur með viðskilnaðinn og vildi líka fá skýringu á skothríðinni. Fóru þeir alla leið vestur heiði að Geitabergi og hringdu þaðan í oddvita sveitarinnar sem var í Saurbæ. Oddvitinn hafði samband við túlkinn sem bauðst til að fara með Þorsteini í herstöðina og fá skýringu á skothríðinni. Fékkst sú skýring að verið var að prófa loftvarnarbyssu með því að skjóta í hamrabeltið fyrir ofan. Þeir sem gerðu það vissu ekki af mönnum þarna uppfrá og hættu strax þegar þeim var gerð grein fyrir aðstæðum. Voru grenjaskytturnar beðnar afsökunar og afhentur passi um að þeim væri heimilt að fara á svæðið ef þeir sýndu hann.

Passi
„Passinn“ sem Þorsteinn fékk til að sýna ef hann þyrfti að fara aftur inn á hersvæðið. (Héraðsskj.Borg. Strandarhreppur, EE 002 16).

Fór nú Þorsteinn og sótti hestana og búnaðinn sem þeir höfðu skilið eftir. En það fór nú svo að hreppsnefndin ákvað að það yrði ekki tekin sú áhætta að reyna aftur að vinna grenið heldur yrði það látið vera að svo komnu máli.